Lífið

Missti þrjátíu kíló en þá komu fordómarnir

Stefán Árni Pálsson skrifar
Arna Pétursdóttir hefur náð frábærum árangri.
Arna Pétursdóttir hefur náð frábærum árangri.
„Ég var alltaf grönn sem barn og unglingur. Ég æfði fótbolta alla mína æsku og aldrei gat ég fengist til að sitja kyrr. Þegar ég fór í framhaldsskóla byrjaði ég hins vegar að borða mjög óhollt, fékk bílpróf og með því fylgdu óteljandi sjoppuferðir og skyndibitaát,“ segir Arna Pétursdóttir í pistli sínum á síðunni Motivation. Hún segir frá því að hafa misst þrjátíu kíló en Arna var einnig gestur í þættinum Brennslan á FM957 í morgun. Þegar Arna var komin í gott form fór að bera á fordómum frá fólki í kringum hana. 

„Það var ekki fyrr en í byrjun 2010, þegar ég var á nítjánda árinu mínu að ég fór að taka eftir því að ég væri aðeins byrjuð að bæta á mig. Þó svo að foreldrar mínir nefndu þetta við mig þá skipti það mig litlu máli, ég borðaði bara, djammaði, hætti í fótbolta og hreyfði mig ekkert. Mér leið samt vel, ég var ung, nóg um að vera í félagslífinu og ég skemmti mér konunglega. Ég lét það ekki á mig fá ef ég heyrði einhvern nefna það að ég væri orðin svolítið feit. Í byrjun árs, í janúar árið 2013 þá steig ég á vigtina í fyrsta skiptið í langan tíma. Mér blöskraði,“ segir Arna sem var þá orðin 84 kíló og er hún 165 sentímetrar á hæð. Í maí árið 2013 fékk hún þær fréttir að hún ætti von á barni með kærastanum sínum.

Átti von á barni og tók sig í gegn

„Ég var gengin átta vikur þegar að ég komst að því og það voru mjög óvæntar fréttir, skemmtilega óvæntar. Ég man að ég sat með sjálfri mér og reyndi að sjá framtíðina fyrir mér. Ég sá sjálfa mig, rauða í framan, með kleprað hár, ósátta og allt of þunga. Ég varð að gera eitthvað til þess að skapa mér og ófæddu barninu betri framtíð. Ég gat ekki hugsað mér að láta þennan skyndibita óþverra ofan í líkama minn þar sem ófætt barnið mitt ætti eftir að vera næstu mánuði. Þá fyrst fór ég að breyta til.“

Hún segist hafa hætt að borða óhollan mat eins og skyndibita, snakk og nammi.

„Ég passaði mig á því að velja alltaf hollari kostinn. Hrökkbrauð frekar en brauð. Ávexti frekar en snakk eða nammi. Þetta gekk mjög vel, vonum framar. Þann 30.desember eignaðist ég gullfallegu Laufeyju mína. Hún var 13,5 merkur og 3395 grömm. Það eru eflaust margir sem að hugsa þegar þeir lesa þessa sögu að maður eigi ekki að vera í átaki á meðgöngu. En ég var ekki í átaki. Ég bara borðaði hollt. Og hún, litla bollan mín er lifandi sönnun þess að það er í lagi, vel í lagi að passa mataræðið á meðgöngu. Mun betra en að leyfa sér allt.“

Arna segist hafa byrjað að hreyfa sig um fjórum mánuðum eftir barnsburð eða í apríl árið 2014.

Magnaður árangur.vísir
„Um þetta leyti var ég orðin um það bil 62 kíló. Ég byrjaði smátt og smátt að bæta í á æfingum og svo var þetta orðið að skemmtilegri rútínu. Ég vil taka það fram að ég horfði aldrei á vigtina. Það er fínt að miða við kílóatölu þegar að þú ert að byrja átakið og ert of þung/ur. Ég kíkti örsjaldan á vigtina, eða bara á nokkurra mánaða fresti. Ég fór í fitumælingu og horfði einungis á fituprósentuna, og útfrá þeirri tölu sá ég þau svæði sem ég þurfti að bæta.“

Árið 2015 ákvað hún síðan að taka þátt í módelfitness.

„Ég hafði hugsað mér að gera þetta í þó nokkurn tíma og mér fannst ég vera komin í sæmilegt form og ætti eftir að hafa gaman að. Ég æfði eins og brjálæðingur fram að keppni sem var í lok nóvember. Þarna fylgdumst við vel með fituprósentunni, ég hafði mælst mjög lág í prósentu til að byrja með svo við settum okkur markmið sem var raunhæft að ná, og því náði ég og gott betur en það. Keppnin sjálf gekk vel, þetta var fyrsta mótið mitt og ég tek alla þá frábæru reynslu af mótinu og öllu ferlinu með mér sem undirbúning fyrir næsta mót.“

Arna segist vera stolt af sér og þeim árangri sem hún hefur náð.

„Í janúarmánuði árið 2013 var ég óánægð með sjálfa mig, 84 kíló, reið, södd og pirruð. Í nóvembermánuði 2015 stóð ég upp á sviði í Háskólabíói fyrir framan fullt af fólki. Á bikiníi. Alsæl með útkomuna og breytinguna á sjálfri mér. Ánægðust er ég þó með það fyrir hversu glöð ég er orðin. Ég er loksins ánægð með líkamann minn, en ég er hundrað sinnum ánægðari með þá manneskju sem ég er orðin. Líkami og hugur, þetta tengist allt saman. Ég vil segja ykkur, þið öll sem lesið og langar að breyta til, hvort svo sem þið eruð of þung eða of grönn og viljið þyngjast. Það gerist ekkert nema að þið ákveðið það. Þetta tekur tíma, þetta kostar svita og tár, þið verðið reið, pirruð og ykkur mun líða eins og ekkert sé að gerast. Ekki hætta. Aldrei hætta. Ef ég gat þetta, þá getið þið þetta. Mér tókst að missa 30 kíló, en það tók á og var erfitt.“

Eins og áður segir var Arna í Brennslunni í morgun og ræddi við þá Kjartan Atla og Hjörvar. Þar kom fram að Arna hafi fundið fyrir miklu meiri fordómum eftir að hún breytti um lífstíl og komst í topp form. Þá hafi fólk farið að spyrja hana hvort hún væri nú ekki orðin of mjó og slíkt. Samtalið við Örnu má hlusta á hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×