Innlent

Bresk herflugvél tekur þátt í leit að flugvélinni

Landhelgisgæslan hefur fengið Nimrod-flugvél frá breska flughernum til þess að leita að flugvélinni sem fór í sjóinn austan við Ísland laust fyrir hádegi.

Fram kemur í tilkynningu Gæslunnar að leitin að vélinni, sem er af gerðinni Piper Cherokeee, hafi enn engan árangur borið. Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, og þyrla, TF-LIF, eru á leitarsvæðinu og verður leit haldið áfram fram í myrkur.

Flugvélin er skráð í Bandaríkjunum og er flugmaðurinn bandarískur að sögn Landhelgisgæslunnar. Vélin hvarf af ratsjá þar sem hún var 130 sjómílur suðsuðaustur af Hornafirði. Skip í nágrenninu hafa verið beðin um að svipast um eftir vélinni.

Fram kemur í tilkynningu Flugstoða að vélin hafi farið frá Reykjavík klukkan hálftíu í morgun en hún var á leið til Wick á Skotlandi. Neyðarsendir flugvélarinnar fór í gang og nam gervihnöttur sendinn klukkan fjórar mínútur í tólf. Veður og sjólag á svæðinu gerir leitina erfiða en mikill vindur er á svæðinu og ölduhæð 7-9 metrar.

Þetta er önnur einkaflugvélin sem hrapar nærri Íslandi í mánuðinum. Þann 11. febrúar fórst Cessna-flugvél með breskum flugmanni vestur af Reykjanesi og þrátt fyrir mikla leit fannst flakið ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×