Innlent

Óskandi að forsætisráðherra gæti sungið erfiðleika burt

MYND/GVa

Forsætisráðherra segir stjórnvöld ekki munu láta neitt tækifæri ganga úr greipum til að leiðrétta rangfærslur um íslenskt efnahagslíf og segir mikilvægt að stjórnvöld og fjármálalífið standi saman að því að berjast fyrir hagsmunum Íslands.

Með þessu var Geir H. Haarde að svara fyrirspurn Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, sem lýsti yfir áhyggjum að stöðu fjármálageirans.

Guðni sagði ánægjulegt að heyra að forsætisráðherra gæti enn sungið þrátt fyrir erfiðleika í efnahagslífinu og vísaði hann þar til þess að Geir tók lagið á tónleikum gegn fordómum í gærkvöld. Það væri óskandi að ráðherra gæti sungið erfiðleikana burt.

Guðni benti á að íslenska útrásin hefði hökt að undanförnu og gagnrýndi hann ofurlaun og launatöku í bankakerfinu. Vísaði hann svo til orða forsætisráðherra á Viðskiptaþingi í síðustu viku um að til stæði að leita samstarfs við fjármálalífið um að standa vörð um íslenskt efnahagslíf og leiðrétta rangfærslur þar um. Spurði hann forsætisráðherra hvað væri fram undan í þessum efnum og hvort til stæði að berjast fyrir hagsmunum Íslands.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði að það yrði að sjálfsögðu barist fyrir hagsmunum Íslands nú líkt og áður. Vísaði hann til fundar sem ríkisstjórnin átti með forkólfum viðskiptalífsins í síðustu viku og sagði að þar hefði komið fram ríkur skilningur á því að menn yrðu að snúa bökum saman í þessum efnum. Hann hefði síðan fengið til liðs við sig mann úr viðskiptalífinu til þess að leggja hönd á plóginn.

Þá sagði Geir að ríkisstjórnin myndi ekki láta neitt tækifæri ganga sér úr greipum til að leiðrétta rangfærslur um íslenskt efnahagslíf. Þjóðarbúskapurinn væri góður og því þyrfti að koma á framfæri á alþjóðavettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×