Enski boltinn

Solskjær: Fótbolti er auðveldur þegar þú ert með góða leikmenn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Solskjær fagnar með Pogba og Fred í leikslok.
Solskjær fagnar með Pogba og Fred í leikslok. vísir/getty
„Fótbolti er auðveldur þegar þú ert með góða leikmenn. Hér er nóg af frábærum leikmönnum og gæðin þeirra eru ótrúleg,“ sagði Ole Gunnar Solskjær eftir 5-1 sigur Manchester United á Cardiff í kvöld.

Leikurinn var fyrsti leikur United undir stjórn Solskjær og hann byrjaði með flugeldasýningu.

„Ég kom á miðvikudagskvöldið og hafði einungis fimmtudaginn og föstudaginn með leikmönnunum. Wayne Rooney sendi mér skilaboð og gaf mér ráð svo þetta hlýtur að vera honum að þakka!“

„Hann sagði mér að láta þá spila fótbolta, láta þeim líða vel og vera Manchester United. Við æfðum í gær að fá bakverðina með upp og það heppnaðist vel í dag.“

United er átta stigum frá topp fjögur sæti en Norðmaðurinn fer ekki fram úr sér þrátt fyrir góðan sigur í kvöld.

„Við tökum einn leik í einu. Við þurfum að vinna upp átta eða níu stiga forskot en við tökum eitt skref í einu.“

„Ég var svo stoltur af móttökunni frá stuðningsmönnunm. Þetta hefur verið tilfinningaþrunginn vika en þetta er farið af stað og nú höldum við áfram.“

Hann segir að það hafi ekki verið erfitt að hafa Paul Pogba í byrjunarliðinu en hann hefur fengið mikla gagnrýni fyrir sína frammistöðu það sem af er á tímabilinu.

„Hann kemur með sín gæði inn í liðið. Hann er gæða leikmaður og ég hef unnið með honum áður. Ég hef notið þessara daga með Paul eins og restinni af liðinu. Ég mun njóta þess næstu fjóra til fimm mánuði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×