Fótbolti

Messi tryggði Börsungum sigur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Barcelona fagna sigurmarki Lionel Messi.
Leikmenn Barcelona fagna sigurmarki Lionel Messi. Vísir/Getty
Barcelona heldur pressunni á Real Madrid í toppbaráttu spænsku úrvalsdeildarinnar eftir 3-2 sigur á Villareal í ótrúlegum leik á Camp Nou í kvöld.

Lionel Messi skoraði sigurmark Börsunga þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en þetta var 22. deildarmark hans í vetur. Messi er næst markahæstur í deildinni, sex mörkum á eftir Cristiano Ronaldo.

Rússinn Denis Cheryshev kom Villareal yfir eftir hálftíma leik en Neymar jafnaði metin á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Á fimm mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks voru svo skoruð þrjú mörk.

Luciano Vietto kom Villareal yfir á nýjan leik á 51. mínútu en tveimur mínútum síðar jafnaði Brasilíumaðurinn Rafinha metin með sínu fyrsta deildarmarki fyrir Barcelona.

Messi skoraði svo sigurmark Börsunga á 55. mínútu eftir sendingu frá Luis Suárez.

Barcelona er nú einu stigi á eftir toppliði Real Madrid en Evrópumeistararnir eiga enn leik inni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×