Hin 15 ára Coco Gauff er komin áfram í 4. umferð Opna ástralska meistaramótsins í tennis eftir sigur á meistaranum Naomi Osaka.
Gauff gerði sér lítið fyrir og vann Osaka í tveimur settum, 6-3 og 6-4.
Gauff skaust fram á sjónarsviðið þegar hún sigraði Venus Williams í 1. umferð á Wimbledon í fyrra. Hún er sú yngsta sem hefur komist í aðalkeppnina á Wimbledon í sögu mótsins.
Þetta er í fyrsta sinn sem Gauff vinnur andstæðing sem er á meðal fimm efstu á heimslistanum. Osaka situr í 4. sæti hans.
Þetta var aðeins annar leikur Gauffs og Osakas en sú síðarnefnda vann viðureign þeirra á Opna bandaríska í fyrra.
Osaka hrósaði sigri á Opna ástralska í fyrra en titilvörnin var heldur endaslepp hjá þeirri japönsku.
Í 4. umferðinni mætir Gauff annað hvort Zhang Shaui eða Sofiu Kenin.