Innlent

Krefja borgina um 18,5 milljónir í bætur vegna fram­kvæmda á Hverfis­götu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ásmundur Helgason, eigandi Gráa kattarins, lýsti óánægju sinni með framkvæmdir á Hverfisgötu í samtali við fréttastofu á síðasta ári. Hann hefur nú krafið borgina um bætur vegna málsins.
Ásmundur Helgason, eigandi Gráa kattarins, lýsti óánægju sinni með framkvæmdir á Hverfisgötu í samtali við fréttastofu á síðasta ári. Hann hefur nú krafið borgina um bætur vegna málsins. vísir/baldur hrafnkell

Þau Ásmundur Helgason og Elín Ragnarsdóttir, eigendur kaffihússins Grái kötturinn, sem stendur við Hverfisgötu, hafa sent Reykjavíkurborg kröfubréf þar sem þau krefjast skaðabóta upp á 18,5 milljónir króna vegna framkvæmda sem stóðu yfir á Hverfisgötu lungann af síðasta ári.

 

Frá þessu er greint á vef RÚV og vísað í kröfubréfið. Í því segir að borgin hafi brugðist skyldu sinni með ófullnægjandi kynningu og skipulagi, hvort sem er í aðdraganda framkvæmdanna og svo á meðan á framkvæmdunum stóð.

Auk þess hefði borgin ekki gripið til aðgerða svo koma mætti í veg fyrir þær tafir sem urðu á verkinu.

Framkvæmdirnar á Hverfisgötu voru afar umdeildar. Þær hófust í maí og átti að vera lokið um þremur mánuðum síðar, í ágúst í kringum menningarnótt. Verklok tókust hins vegar ekki fyrr en í nóvember síðastliðnum.

Að því er segir í frétt RÚV var kröfubréfið sent til borgarinnar í liðinni viku. Í því komi fram að ekki hafi verið gerðar neinar ráðstafanir til að bæta eigendum Gráa kattarins það óþarfa tjón sem hlotist hafi og ekkert sambandi hafi verið haft vegna þess.

Þá er bent á það að slæmt aðgengi að kaffihúsinu á framkvæmdatíma hafi valdið samdrætti í rekstrinum upp á 20 til 25 prósent. Mestur hafi hann orðið í október, alls 38 prósent.

Einnig hafi orðspor staðarins beðið hnekki vegna einkunna sem ferðamenn hafi gefið staðnum á erlendum vefsíðum. Þar hafi mátt finna athugasemdir um slæmt aðgengi.

Ásmundur Helgason, annar eigandi Gráa kattarins, vildi ekki tjá sig um málið þegar Vísir leitaði eftir því.


Tengdar fréttir

„Brandari hve fáir eru í vinnu þarna“

Mikillar óánægju gætir meðal rekstraraðila á Hverfisgötu vegna tafa á framkvæmdum á vegum borgarinnar og Orkuveitu Reykjavíkur. Safnahúsinu hefur nokkrum sinnum verið lokað vegna hávaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×