Innlent

Hrollvekjandi að heyra um kvikustreymi undir Krýsuvík

Hrollur fór um vistmenn og starfsfólk meðferðarheimilisins í Krýsuvík þegar þau heyrðu fréttir um kvikustreymi undir svæðinu og hættu á gufusprengingum.

Jarðvísindamenn hafa gert Almannavörnum viðvart um landris við Kleifarvatn sem þeir rekja til kvikuinnstreymis eða þrýstingsaukningar af öðrum ástæðum í jarðhitakerfinu. Hætta er talin á öflugum gufusprengingum í líkingu við þá sem varð þarna fyrir tíu árum.

Einu íbúar svæðisins eru 21 vistmaður meðferðarheimilis Krýsuvíkursamtakanna en sjö starfsmenn eru auk þeirra að jafnaði yfir daginn. Þorgeir Ólason, forstöðumaður heimilisins, segir að hrollur hafi farið um fólk í Krýsuvík að heyra þessar fréttir. Því finnist þetta óþægilegt. Hann segir menn orðna vana hræringum enda hafi verið mikið um skjálfta á svæðinu undanfarið ár. Og það er meira að segja jarðskjálftamælir í kjallaranum og það finnist skjálftar þarna á hverjum degi. Þessar nýjust fréttir ýti því undir óttann hjá fólki.

Þegar hvít mjöllin liggur yfir landinu sjást betur jarðhitasvæðin í fjöllunum en Þorgeir telur sig ekki hafa séð óvenjulegar breytingar á þeim að undanförnu. En það virðist enginn ætla að flýja Krýsuvík. Þorgeir segir að það verði ekkert pakkað saman. Þau búi í sterku húsi og það sé langt í holurnar sem hugsanlega geti sprungið. Hann hafi því ekki stórar áhyggjur en segir betra að vera á varðbergi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×