Körfubolti

Fær loksins grænt ljóst á að spila eftir meira en sautján daga bið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Deremy Geiger á varamannabekknum hjá Stólunum.
Deremy Geiger á varamannabekknum hjá Stólunum. Mynd/S2 Sport

Nýr Bandaríkjamaður Stólanna er loksins kominn með leikheimild í íslensku Domino´s deildinni.

Deremy Geiger verður því í búning í fyrsta sinn í kvöld þegar Tindastóll fær Val í heimsókn í Domino´s deild karla í körfubolta.

Það er hins vegar ekki eins og Geiger hafi verið að lenda í gær. Hann hefur verið „klappstýra“ liðsins í undanförnum leikjum.

Deremy Geiger var nefnilega kominn til landsins fyrir fyrsta leik Tindastóls eftir áramót sem var á móti Keflavík 6. janúar.

Það tók langan tíma að fá leikheimildina í gegn og hefur Geiger því aðeins verið áhorfandi í síðustu fjórum leikjum liðsins. Tveir af þeim hafa tapast.

Deremy Geiger er 29 ára gamall og 182 sentímetra leikstjórnandi sem var með 16,1 stig og 3,7 stoðsendingar að meðaltali í leik í tékknesku deildinni í fyrra. Hann hitti þá úr 41 prósent þriggja stiga skota sinna og 86 prósent vítanna.

Tindastóll er áfram með Bandaríkjamanninn Gerel Simmons og geta því aðeins verið með annan þeirra inn á vellinum í einu. Síðan að Deremy Geiger kom þá hefur Gerel Simmons verið með 22,7 stig og 3,3 stoðsendingar að meðaltali í þremur deildarleikjum þar sem hann hefur hitt úr 53 prósent þriggja stiga skota sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×