Innlent

Var rétt yfir 30 kílómetra hraða

Skemmtibáturinn sem fórst á Viðeyjarsundi aðfaranótt 10. september var á 17 sjómílna hraða þegar hann sigldi á Skarfasker, en það jafngildir tæplega 31 kílómetra hraða á klukkustund. Í atvikalýsingu Rannsóknarnefndar sjóslysa kemur fram að klukkan verið 1:38 þegar bátnum var siglt á skerið, en sendingar frá GPS tæki hættu 27 mínútum síðar. Þá hafði bátnum verið siglt frá skerinu þangað sem hann sökk. Ekki hefur verið skorið úr um hvort fram fari sjópróf vegna slyssins. Þá stendur enn rannsókn lögreglu á tildrögum þess og ekki vitað hvenær henni lýkur. Jón Arilíus Ingólfsson, framkvæmdastjóri Rannsóknarnefndar sjóslysa segir að sjópróf verði ekki haldin nema farið verði fram á það, en stundum komi fram beiðni um slíkt frá tryggingafélögum eða eigendum báta. Hann segir hins vegar að nefndin muni ekki hefja slíka rannsókn að fyrra bragði. Hann segir þó að gerð verði skýrsla um slysið sem birt verði á vef nefndarinnar þegar hún liggur fyrir. "Í slysinu eru þættir sem við viljum taka á og erum enn að safna gögnum í," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×