Erlent

Írakar mótmæltu veru Bandaríkjahers

Jónas Haraldsson skrifar
Mótmælendurnir veifuðu íraska fánanum og sungu söngva til styrktar al-Sadr.
Mótmælendurnir veifuðu íraska fánanum og sungu söngva til styrktar al-Sadr. MYND/AFP

Tugir þúsunda Íraka mótmæltu í gær veru Bandaríkjamanna í Írak. Sumir rifu bandaríska fánann og hentu honum í götuna til þess að leggja áherslu á mál sitt. Mótmælin fóru þó friðsamlega fram.

Mótmælendurnir gengu fimm kílómetra leið á milli hinna heilögu borga Kufa og Najaf en í gær voru fjögur ár síðan Bagdad féll í hendur Bandaríkjanna. Í höfuðborginni var allt með felldu þar sem herinn bannaði alla bílaumferð í borginni í gær.

Sjía klerkurinn Moktada al-Sadr skipulagði mótmælin til þess að sýna Bandaríkjamönnum og stjórnvöldum í Írak fram á styrk sinn. Al-Sadr lét þó ekki sjá sig þrátt fyrir vonir stuðningsmanna sinna en hann hefur verið í felum í marga mánuði. Hann hefur verið ötull í gagnrýni sinni á Bandaríkjamenn. Á sunnudaginn síðastliðinn sendi hann frá sér yfirlýsingu þar sem hann skoraði á Mahdi her sinn að tvíefla baráttu sína gegn hersetuliði Bandaríkjanna. Hann baðst þess einnig að lögreglan og herinn í Írak gengju í lið með uppreisnarmönnum gegn Bandaríkjunum, sem hann kallar erkióvin írösku þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×