Viðskipti innlent

Nóbelsverðlaunahafi í ráðgjafaráði Askar Capital

MYND/Askar Capital

Nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði Dr. Edmund S. Phelps mun taka sæti í hinu nýstofnaða ráðgjafaráði sem fjárfestingarbankinn Askar Capital stendur fyrir. Ráðið lýtur stjórn Karls Wernersonar, stjórnarformanns Milestones, en markmið þess er að leggja grunn að framtíðarstefnumörkun bankans

Dr. Edmund S. Phelps hlaut nóbelsverðlaun í hagfræði í fyrra fyrir yfirgripsmikið framlag sitt til fræðigreinarinnar. Hann lauk doktorsprófi frá Yale háskóla árið 1959 og hefur hann verið McVickar prófessor í hagfræði við Columbia háskóla síðan árið 1982. Hann hefur meðal annars verið fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna, fjármálanefnd öldungadeildarinnar og Seðlabanka Bandaríkjanna til ráðgjafar.

Þá mun einnig finninn dr. Pentti Kouri taka sæti í ráðinu en hann hefur setið í stjórn fjölmargra alþjóðlegra stórfyrirtækja.

Í tilkynningu frá Askar Capital kemur fram að ráðið muni vinna náið með stjórn bankans í að móta framtíðarsýn hans og stefnumótun. Meðlimir ráðsins sitja til þriggja ára í senn.

Askar Capital var stofnaður í desember á síðasta ári en bankinn sérhæfir sig í áhættufjárfestingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×