Erlent

Elsti fósturvísirinn að barni

Ekki er algengt að geyma fósturvísa í jafn langan tíma og var gert í dæmi Lainu litlu.
Ekki er algengt að geyma fósturvísa í jafn langan tíma og var gert í dæmi Lainu litlu.

Stúlkubarn fæddist nýlega í Bandaríkjunum en fósturvísirinn sem barnið þróaðist úr hafði verið geymdur í frysti í þrettán ár. Þetta er talinn lengsti tími sem fósturvísir hefur verið geymdur þannig að úr hafi orðið heilbrigt barn.



Stúlkan, sem heitir Laina Beasley, á tvö systkini á táningsaldri sem voru getin með tæknifrjóvgun á sama tíma og fósturvísirinn sem síðar varð að Lainu var frystur.



Móðirin, Debbie Beasley, er nú 45 ára. Hún hóf frjósemismeðferð við háskólann í Kaliforníu á tíunda áratugnum. Þá notuðu læknar egg hennar og sæði eiginmannsins Kent til að búa til tólf fósturvísa en tveir þeirra urðu að tvíburum sem fæddust árið 1992.



Þremur árum síðar komst upp að læknar á frjósemisstöðinni hefðu notað fósturvísa í leyfisleysi og var læknastöðinni lokað og fósturvísarnir sem frystir höfðu verið voru sendir til rannsókna víða um Bandaríkin.



Debbie og Kent tókst að finna átta af eigin fósturvísum og reyndu árið 1996 að eignast annað barn. Debbie fékk alvarleg ofnæmisviðbrögð við frjósemislyfi og var nærri dáin. Það var ekki fyrr en sjö árum síðar að hún var tilbúin að reyna á ný og nú á hún hina litlu Lainu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×