Aðalvarðstjóri á lögreglustöð 1 staðfestir þetta í samtali við fréttastofu en mbl.is greindi fyrst frá aðgerðinni. Þar kemur fram að þrír sérsveitarbílar með átta fullbúnum sérsveitarmönnum hafi verið á vettvangi.
Þrátt fyrir að aðalvarðstjóri hafi staðfest fréttirnar varðist hann að öðru leyti allra fregna og sagði að málið væri nú komið til rannsóknardeildar lögreglu.
Íbúar sem búa í námunda við einbýlishúsið, sem lögregla á að hafa ráðist inn í, greina frá því sem fyrir augu bar í gærkvöldi. Einn íbúanna sagði fréttamanni frá því að í lögregluaðgerðinni hefðu tveir menn verið handteknir úti á miðri götu.
Sjónarvottar greindu frá því að hafa fylgst með þegar lögregla dró stærðarinnar eggvopn upp úr buxnaskálm annars mannsins sem handtekinn var og þá hafi hinn maðurinn verið handtekinn ofar í götunni eftir að hafa reynt að flýja.
Að sögn nágranna leigir Reykjavíkurborg umrætt hús og búa þar umsækjendur um alþjóðlega vernd.
