Jón er þó ekki staddur í Rússlandi þar sem hann ásamt öðrum ömmum og öfum í fjölskyldunni tók það að sér að hlúa að börnunum á meðan Halla Jónsdóttir, dóttir Jóns Steindórs og eiginkona Hannesar, styður sinn mann austanhafs.
Sjá einnig: Stoltasti pabbi í heimi brast í grát þegar Hannes varði vítið frá Messi
„Ég sá þennan fræga leik í Gilinu á Akureyri. Það fór nú eiginlega þannig að ég hélt um stund að ég hefði varið vítið sjálfur, ég fékk allar þakkirnar,“ segir Jón Steindór og hlær en hann var þar einnig að fagna 40 ára stúdentsafmæli.

Jón Steindór er stoltur af tengdasyni sínum og ber honum söguna vel. „Hannes er mikill gæðadrengur og hraustur. Hann er búinn að standa sig afar vel,“ segir hann.
„Það hlýtur að vera draumur hvers markmanns að verja vítaspyrnu frá einum af bestu knattspyrnumönnum sögunnar, eins og hann orðaði það sjálfur er það líklega draumur sem varð að veruleika, toppurinn á tilverunni.“Jón Steindór er bjartsýnn á framhaldið og segir að íslenska landsliðið hafi sýnt og sannað að allt geti gerst. „Þessir strákar gera allt sem þeir geta og saman eru þeir afl.“
Sjálfur segist Jón Steindór ekki hafa verið mikill fótboltaáhugamaður en viðurkennir að eftir að Hannes kom inn í líf fjölskyldunnar hafi áhugi hans aukist til muna. „Ég er allt í einu farinn að horfa mikið á fótbolta, aðallega þegar Hannes er að spila. Ég leyfi mér alveg að sleppa mér yfir leikjum,“ segir hann og hlær. Hvort hann fari nú að sparka í bolta með barnabörnunum segir hann það ekki útilokað. „Það er aldrei að vita nema ég sparki kannski eitt spark allavega.“