Erlent

Fyrsta konan til tunglsins gæti þurft að vinna kærustukeppni

Samúel Karl Ólason skrifar
Japanski milljarðarmæringurinn Yusaku Maezawa.
Japanski milljarðarmæringurinn Yusaku Maezawa.

Japanski milljarðarmæringurinn Yusaku Maezawa, sem tilkynnti árið 2018 að hann hefði greitt fyrirtækinu SpaceX fyrir hringferð um tunglið árið 2023, er að leita sér að kærustu til að fara með sér. Sú ferð á að vera farin með geimskipinu Starship sem starfsmenn SpaceX eru enn að þróa. Maezawa, sem er 44 ára gamall og tveggja barna faðir, hóf á dögunum nokkurs konar kærustukeppni þar sem konur eiga að keppast um hylli hans og þar með, kannski, komast hring um tunglið.

Maezawa tísti um keppnina á sunnudaginn. Þar birti hann mynd af sér og tunglinu með textanum: „Komdu með mér til tunglsins?“ Fram kemur einnig að umsóknarfrestur í keppnina sé til 17. janúar.

Tístinu fylgdi hlekkur á vef keppninnar, sem virðist eiga að gera heimildarmynd um, og koma reglurnar þar fram. Konur sem taka þátt verða að vera orðnar minnst tuttugu ára gamlar og einhleypar. Þær verða að hafa „bjartan persónuleika“, „vera alltaf jákvæðar“ og tilbúnar til að „lifa lífinu til fulls“.

Þær þurfa sömuleiðis að hafa áhuga á geimnum og geta tekið þátt í undirbúningi fyrir geimferðina. Auk þess þurfa konurnar að vilja heimsfrið.

Farið verður yfir þær umsóknir sem berast 25. til 26. janúar og í kjölfar þess hefjast stefnumótin með Maezawa um miðjan febrúar. Um miðjan mars virðist sem að fram fari önnur röð stefnumóta og ætlar milljarðamæringurinn að taka ákvörðun um nýju kærustu sína í lok mars.

Starship-geimflauginni er ætlað að flytja tugi manna út í geiminn. Maezawa sagði upprunalega að hann ætlaði sér að bjóða sex til átta listamönnum með sér á ferð um tunglið. Ekki liggur fyrir hvort hann hefur hætt við það eða hvort þessir listamenn séu á leið með væntanlegri kærustu milljarðamæringsins.

Viðbrögðin við kærustukeppni Maezawa eru vægast sagt blendin og nánast öllum sem svara tísti hans líst lítið sem ekkert á uppákomuna. Inn á milli eru svo aðilar sem eru sannfærðir um að tungllendingar Appolo-áætlunarinnar hafi verið sviðsettar og ómögulegt sé að fara til tunglsins. Vert er að taka fram að þeir hafa rangt fyrir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×