Innlent

Vanskil minnka hjá Félagsbústöðum

Vanskil skjólstæðinga Félagsbústaða hafa minnkað um rúm tuttugu prósent frá árinu 1997. Framkvæmdastjóri Félagsbústaða telur ástæðuna vera betri innheimtu og að skjólstæðingar sjái sér ekki annað stætt en að standa í skilum. Fyrsta rekstrarár Félagsbústaða voru vanskil skjólstæðinga um 25 prósent en eru í dag um fjögur prósent. Ellefu mál gegn skjólstæðingum Félagsbústaða eru þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Sigurður Friðriksson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, segir þann fjölda vera frekar óvenjulegan en telur að málunum hafi verið safnað saman. Eins segir hann málin ekki endilega þurfa að enda með útburði þar sem allt eins geti verið að Félagsþjónustan grípi inn í ef erfiðar aðstæður hafi orðið til þess að leiga endaði í vanskilum. Um 700 eru á biðlista eftir íbúð hjá Félagsbústöðum nú en fyrir tæpum tveimur árum voru rúmlega eitt þúsund manns á biðlistanum. Ástæðuna fyrir fækkuninni segir Sigurður að mestu vera sérstakar húsleigubætur sem fyrir nokkru voru teknar upp til að auðvelda fólki að vera á hinum almenna leigumarkaði auk þess sem íbúðum Félagsbústaða hefur fjölgað. Sigurður segir þó um helming þeirra sem nú eru á biðlista aldrei fá íbúð hjá Félagsbústöðum þar sem forgangsraðað sé eftir því hversu brýn þörf fólks er og sumir lendi því alltaf aftarlega í röðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×