Innlent

Unnið að slitum Húsfélags alþýðu

Félagsfundur Húsfélags alþýðu samþykkti að fela tveimur lögfræðingum að móta tillögur sem laga starfsemi félagsins að áliti kærunefndar um fjöleignahús og lögum um þau. Þar með hefst vinna við að leggja niður þetta gamalgróna húsfélag, sem á rætur í félagslegum íbúðum sem reistar voru af Byggingarfélagi alþýðu um og eftir 1930. "Það var almennt mjög mikil sátt um þetta á fundinum," sagði Hrund Kristinsdóttir, lögmaður hjá Húseigendafélaginu, en hún mun móta tillögurnar ásamt lögmanni húsfélagsins, Sigríði Rut Júlíusdóttur. Hrund sagði að félagsmenn vildu leggja áherslu á að starfsemi félagsins væri samkvæmt lögum. Þeir vildu láta þessa vinnu fara fram, en síðan yrði tekin ákvörðun um með hvaða hætti félagið yrði leyst upp í núverandi mynd og skipt í fimm minni húsfélög. "Félagið á sameiginlegar eignir sem þarf að skipta. Gera þarf upp bókhaldið og skipta því upp ásamt fleiri atriðum sem þarf að vinna," sagði Hrund og bætti við að það væri ekki einfalt mál að skipta upp svo flóknu félagi sem Húsfélag alþýðu væri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×