Innlent

Ber ekki ábyrgð á skráningum

Kosningastjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem býður sig fram til embættis formanns Samfylkingarinnar hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna frétta undanfarna daga af skráningum í Samfylkinguna í tengslum við formannsslaginn. Þar segir: „Vegna frétta í fjölmiðlum undanfarna daga af umdeildum skráningum í Samfylkinguna vill kosningarstjórn Ingibjargar Sólrúnar taka fram að þessar skráningar komu ekki í gegnum okkar kosningamiðstöð. Á okkar vegum fór skráning nýrra félagsmanna þannig fram að um 350 sjálfboðaliðar höfðu samband við einstaklinga sem styðja Samfylkinguna en voru ekki skráðir í flokkinn. Ekki var notast við félagaskrár úr öðrum félögum, hvað þá að farið væri inn í grunnskóla landsins. Boðið var upp á skráningu á heimasíðunni www.ingibjorgsolrun.is en haft var samband símleiðis við alla sem náðist til og skráðir voru með þeim hætti til að ganga úr skugga um að það væri gert með þeirra vitund og vilja. Með þessum hætti voru skráðir 3154 nýir félagsmenn í Samfylkinguna. Við getum með sanni sagt að við höfum vandað til verka og sýnt Samfylkingunni og félögum hennar virðingu og hollustu með vinnubrögðum okkar. F.h. kosningarstjórnar Ingibjargar Sólrúnar Ólafía B. Rafnsdóttir, kosningastjóri.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×