Innlent

Fækkað um helming hjá varnarliðinu

Hermönnum á Keflavíkurflugvelli hefur fækkað um ríflega helming frá 1990. Þá voru tæplega 3300 hermenn staðsettir hérlendis en þeir voru um 1450 í byrjun þessa árs. Íslenskum starfsmönnum varnarliðsins fækkaði um 38 af hundraði á sama tíma, úr 1086 í 674. Þrátt fyrir þessa fækkun eru umsvif varnarliðsins enn veruleg hérlendis og fjárhagsleg áhrif af veru þess umtalsverð. Þannig námu heildargreiðslur til íslenskra aðila á vegum varnarliðsins árið 2003 samtals tæpum tólf milljörðum króna á árinu 2003. Að launakostnaði frátöldum skiptast greiðslur fyrir verktöku og kaup á vörum og þjónustu þannig að fyrirtæki og stofnanir á Suðurnesjum fengu ríflega tvo og hálfan milljarð í sinn hlut en fyrirtæki og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum samtals tæpa fimm milljarða króna. Sjötíu af hundraði þeirra sem starfa fyrir varnarliðið eru búsettir á Suðurnesjum. Nettótekjur íslenska hagkerfisins á síðasta ári af viðskiptum og þjónustu við varnarliðið, áðurgreindir tólf milljarðar samsvara einu og hálfu prósenti af vergri landsframleiðslu en til samanburðar námu fjárhagsleg umsvif varnarliðsins 2,6 prósentum af vergri landsframleiðslu árið 1990. Til hliðsjónar þá kostaði rekstur varnarliðsins á síðasta ári um 18 milljarða króna eða um 250 milljónir dollara. Tölur um fjölda hermanna segja ekki alla söguna um fjölda þeirra sem hér dvelja í tengslum við varnarliðið. Þær eru mun hærri þegar fjölskyldur hermanna eru reiknaðar með. Heildarfjöldi þeirra sem hér dvöldu á vegum hersins árið 1990 var þannig um fimm þúsund manns en var liðlega 3330 í upphafi þessa árs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×