Innlent

Fjölmenni mótmælti ofbeldi

Um eitt þúsund manns komu saman á Akureyri í dag til að mótmæla auknu ofbeldi. Ofbeldi var sýnt rauða spjaldið og segir einn skipuleggjenda að atburðir eins og orðið hafa í bænum að undanförnu, verði ekki liðnir. Bæjarstjórinn fagnar þessu átaki og segir fólk komið með upp í kok af ofbeldi. Fregnir af grófum ofbeldismálum hafa veriðáberandi undanfarin misseri og nú síðustu daga hafa að minnsta kosti tvö gróf ofbeldismál á Akureyri verið mikið til umfjöllunar. Hópi akureyskra ungmenna var nóg boðið og með stuðningi Akureyrarbæjar var efnt til útifundar í dag þar sem ofbeldi var sýnt rauða spjaldið bókstaflega. Valdís Hanna Jónsdóttir, einn skipuleggjenda, segir að Akureyri sé fjölskyldu- og menningarbær og þar vilji fólk ekki hafa svona mikið ofbeldi. Lögreglan áætlar að um eitt þúsund manns hafi komið saman á ráðhústorginu á Akureyri í dag til að sýna ofbeldinu rauða spjaldið og tónlistarmaðurinn KK fór sérstaklega norður til að leggja málinu lið. Mikil umræða er í bænum, ekki síst meðal ungs fólks, um aukið ofbeldi. Valdís Hanna segir að fólk sé almennt búið að fá nóg, hvort sem það sé ungt eða gamalt, og það vilji að eitthvað verði gert í málunum. Því sé ekki beinlínis verið að mótmæla heldur vekja fólk til umhugsunar, bæði stjórnvöld og almenning, og benda á að nú sé kominn tími til að gera eitthvað róttækt. Fregnir hafa borist um að til standi að efna til svona funda víðar á landinu. Sumum verslunum á Akureyri var lokað í dag til að fólk gæti mætt á fundinn og meðal þeirra sem sýndu rauða spjaldið var bæjarstjórinn Kristján Þór Júlíusson sem sagðist taka þátt í aðgerðunum eins og hver annar bæjarbúi. Hann sagði enn fremur að sem betur fer sýndi þetta hug fólks til þeirrar stöðu sem uppi væri. Fólk vildi mótmæla því ofbeldi sem hefði rutt sér upp á yfirborðið á undanförnum árum. Það væri gott þegar almenningur lýsti því yfir að hann væri búinn að fá upp í kok af því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×