Viðskipti innlent

Indverjar svara í símann fyrir WOW

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Nýleg Airbus þota WOW air. Þegar hringt er í þjónustuver fyrirtækisins í framtíðinni svara Indverjar.
Nýleg Airbus þota WOW air. Þegar hringt er í þjónustuver fyrirtækisins í framtíðinni svara Indverjar. Fréttablaðið/Vilhelm
Flugfélagið WOW air hefur samið við fyrirtækið InterGlobeTechnologies, alþjóðlegt fyrirtæki á Indlandi, og munu starfsmenn þar í landi sinna almennri þjónustu í gegnum síma, svara tölvupóstum og aðstoða viðskiptavini sem hafa samband við þjónustuver WOW air.

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir samninginn hafa verið gerðan vegna gríðarlegs álags á þjónustuver fyrirtækisins og til að anna eftirspurn erlendra farþega félagsins eftir þjónustu í gegnum síma. Fjöldi starfsmanna verður breytilegur eftir álagstímum.

„Samningurinn tók gildi í maí og hefur samstarfið gengið vonum framar. Sólarhringsaðstoð er í boði og er það markmiðið að veita bestu þjónustu sem völ er á,“ segir Svana og bætir við að eftir sem áður muni þjónustuver starfa á Íslandi til að þjóna íslenskum markaði ásamt erlendum mörkuðum á opnunartíma þess.

Svanhvít segir InterGlobeTechno­logies vera virt fyrirtæki sem sérhæfi sig í ferðaþjónustu og starfi fyrir stór félög á borð við KLM, British Airways og Expedia.



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. júní 2016






Fleiri fréttir

Sjá meira


×