Viðskipti innlent

Icelandair grípur til varúðarráðstafana vegna Wuhan-veirunnar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Röskun á flugi Icelandair í dag mun hafa áhrif á ríflega 3000 farþega.
Röskun á flugi Icelandair í dag mun hafa áhrif á ríflega 3000 farþega. Vísir/Vilhelm

Icelandair er í reglulegum samskiptum við sóttvarnarlækni vegna Wuhan-kórónaveirunnar og hefur félagið gripið til varúðunarráðstafana vegna hennar. Flugfélagið hefur til að mynda sett viðbótarbúnað á borð við andlitsgrímur, hanska og sótthreinsiefni um borð í vélar sínar.

Wuhan-kórónaveiran hefur dreifst hægt og bítandi um heiminn frá Wuhan í Kína. Að minnsta kosti 170 manns hafa látist vegna veirunnar, flestir í Hubei-héraðinu þar sem Wuhan er. Þá eru staðfest smit 7711 í átján ríkjum.

Mikill viðbúnaður er víða vegna veirunnar og hafa flugfélög á borð við SAS og British Airways aflýst öllum beinum flugferðum til Kína í varúðarskyni. Þá hafa stofnanir gefið út leiðbeiningar til flugfélaga um hvernig eigi að bregðast við leiki grunur á smiti um borð í farþegaflugvélum.

Í svari Icelandair við fyrirspurn fréttastofu um hvernig flugfélagið bregðist við Wuhan-kórónaveirunni kemur fram að félagið sé í reglulegum samskiptum við sóttvarnarlækni og Landlæknisembættið, þeirra leiðbeiningum sé fylgt.

Flugfélagið leggi á þessu stigi áherslu á aukna upplýsingagjöf til áhafna og farþega sem og aukna vöktun. Fylgst sé náið með frangangi mála.

„Þá höfum við yfirfarið verkferla og viðbragðsáætlanir okkar og gripið til varúðarráðstafana með viðbótarbúnaði um borð í vélum okkar, svo sem sótthreinsiefni, andlitsgrímur og hanska í öryggisskyni,“ segir í svarinu.


Tengdar fréttir

SAS stöðvar ferðir til Kína

Norræna flugfélagið SAS hefur ákveðið að aflýsa öllum flugferðum félagsins til og frá Kína fram til 9. febrúar hið minnsta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×