Erlent

Misánægð með nýja sendiherrann

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilnefndi í gær Jeffrey Ross Gunter í embætti sendiherra á Íslandi. Gunter er einn leiðtoga samtaka gyðinga í Repúblikana­flokknum og húðsjúkdómalæknir frá Kaliforníu.

Hann var jafnframt örlátur í garð framboðs Trumps árið 2016 og sat að auki í fjármálanefnd undirbúningsteymis hans eftir kosningarnar áður en Trump var settur í embætti.

Gunter á eftir að mæta fyrir nefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings þar sem hann verður væntanlega spurður spjörunum úr. Þekking hans á Íslandi og skoðanir á sambandi Íslands og Bandaríkjanna verða þar í forgrunni.

Gunter starfar sem húðlæknir.Mynd/Twitter
Sem læknir er Gunter misvinsæll, ef marka má umsagnavefinn Yelp og heilbrigðismálaþjónustu U.S. News. Meðaleinkunn Gunters á Yelp er 1,5 stjarna af fimm og hefur 21 sagt skoðun sína á honum.

Ron M. sagði til að mynda að Gunter væri alveg sama um sjúklinga sína, af heimsókn sinni að dæma. Starfsfólk hans hafi hagað sér ófagmannlega og gaf Gunter eina stjörnu. Samantha C. var ekki sammála. Sagði reynslu sína frábæra og Gunter afar fróðan, gaf honum fimm stjörnur.

U.S. News birtir samantektir um lækna og í umfjöllun um Gunter fær hann tvö stig af fimm. Byggist sú einkunnargjöf á reynslu 55 sjúklinga. Þessa einkunn fékk hann í öllum flokkum. Þeir eru hversu ítarlegar læknisskoðanir hans eru, hversu miklum tíma hann ver með sjúklingum, ánægja sjúklinga með árangur hans og almennt orðspor.


Tengdar fréttir

Trump búinn að útnefna nýjan sendiherra á Íslandi

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, útnefnt Dr. Jeffrey Ross Gunter sem nýjan sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Sendiráð Bandaríkjanna hér á landi hefur verið sendiherralaust í um eitt og hálft ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×