Nítján björgunarsveitarmenn voru við leit við Hvalnes í morgun að manneskju sem talin var í sjálfheldu. Útkall barst til björgunarsveitar á ellefta tímanum í morgun en tilkynningin var á þá leið að hópur ferðamanna hefði heyrt óp í manneskju.
Í fyrstu var talið að tvær manneskjur væru í sjálfheldu en síðar var talið að aðeins væri um eina manneskju að ræða.
Samkvæmt upplýsingum frá Björgunarfélagi Hornafjarðar var leitað á þeim stað á Hvalnesi, austan við Hornafjörð, en ekkert fannst. Var rætt við hópinn sem heyrði ópið og ferðamennirnir beðnir um að gefa nánari lýsingu á því hvað þeir sáu og heyrðu. Er staðurinn ekki talinn líklegur til að valda því að manneskja lendi í sjálfheldu.
Björgunarsveitarmennirnir sem tóku þátt í þessari aðgerð eru frá Hornafirði og Djúpavogi og munu þeir leita af sér allan grun áður en aðgerðum verður hætt.
Leituðu að manneskju eftir að hópur ferðamanna heyrði óp
Birgir Olgeirsson skrifar
