Innlent

Miðast við lög og dómafordæmi

Bogi Nilsson ríkissaksóknari segir að saksóknarar embættisins fari yfir rannsóknargögn hvers máls og það þurfi að vera líklegt eða verulega líklegt að ákæra leiði til sakfellingar til að málið leiði til ákæru, jafnvel þó svo að um kynferðisbrot gagnvart börnum sé að ræða. Hann segir að ákæruvaldið teygi sig þó mjög langt í þessum málaflokki eins og sýknudómar benda til. Sakfelling fáist aðeins í um það bil 90 prósentum tilfella. Mál af þessu tagi sé látið niður falla ef aðeins helmings líkur séu á sakfellingu enda eigi sýknudómar helst ekki að falla. Í barnaverndargeiranum gætir undrunar á þröngu viðmiði saksóknaraembættisins í kynferðisbrotamálum gagnvart börnum. Bogi neitar því að það sé matskennd og huglæg ákvörðun einstakra saksóknara hvort ákært verði. Starfsreglan sé sú að tveir til þrír saksóknarar fari yfir málið hver í sínu lagi áður en ákvörðun sé tekin. Sömu starfsreglur gildi um kynferðisbrot og önnur brot. Reglurnar miðist við lög og dómafordæmi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×