Innlent

Vöruskiptahalli dregst saman um 68 milljarða á milli ára

MYND/GVA

Tæplega 88 milljarða króna halli varð á vöruskiptum við útlönd í fyrra eftir því sem segir á vef Hagstofunnar. Fluttar voru út vörur fyrir tæpa 303 milljarða en inn voru fluttar vörur fyrir rúma 390 milljarða. Þetta þýðir enn fremur að vöruskiptajöfnuðurinn var tæpum 68 milljörðum króna hagstæðaru en árið 2006.

Þegar aðeins er horft til desembermánaðar síðastliðins voru fluttar út vörur fyrir 25,5 milljarða króna og inn fyrir 34,8 milljarða króna. Vöruskiptin í desember voru því óhagstæð um 9,3 milljarða króna. Í desember 2006 voru vöruskiptin hins vegar óhagstæð um tæpa 20,2 milljarða króna á sama gengi.

 

Meira flutt út af áli og fisk og inn af fiski

Heildarverðmæti vöruútflutning reyndist 64 milljörðum eða rúmum fjórðungi meira í fyrra en á árið 2006. Sjávarafurðir voru 42 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra 4,4 prósentum meira en á sama tíma árið áður. Útfluttar iðnaðarvörur voru 39 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra tæpum 30 prósentum meira en árið áður. Þar vó ál þyngst.

Innflutningurinn var hins vegar 3,5 milljörðum eða einu prósenti minni í fyrra en árið á undan. Stærstu liðir innflutnings 2007 voru hrá- og rekstrarvara með 26,2 prósenta hlutdeild, fjárfestingarvara með 22 prósenta hlutdeild og flutningatæki með um fimmtungshlutdeild.

Af einstökum liðum varð mestur samdráttur, í krónum talið, í innflutningi á flutningatækjum og fjárfestingavöru. Innflutningur á hrá- og rekstarvöru jókst hins vegar og sömuleiðis á neysluvörum og drykkjavörum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×