Innlent

Össur neitar að tjá sig meira um Gíslaskrif

Bloggskrif iðnaðarráðherra hafa valdið sumum hugarangri.
Bloggskrif iðnaðarráðherra hafa valdið sumum hugarangri.

Össur Skarphéðinsson neitaði í dag að tjá sig um skrif sín á bloggsíðu sinni um Gísla Martein Baldursson. Ráðherrann var að koma af ríkisstjórnarfundi þegar blaðamenn reyndu að ná af honum tali. Össur vildi ekki veita viðtöl en sagðist þegar hafa tjáð sig um málið

Þar átti hann væntanlega við viðtal sem tekið var við hann í Kastljósinu í gær þar sem hann meðal annars neitaði að biðjast afsökunar á ummælum sínum um Gísla en grein hans um borgarfulltrúann ber yfirskriftina „Sjálfseyðing ungstirnis." Skrifin hafa valdið talsverðum titringi á meðal félaga Össurar í meirihlutanum á Alþingi og krafðist Sigurður Kári Kristjánsson þess í gær að Össur bæðist afsökunar.

Þá hafa 106 manns tjáð sig í kommentakerfinu hjá Össuri og eru menn þar ýmist að hrósa ráðherranum fyrir skrifin eða lasta hann.

„Flottur pistill, gaman þegar stjórnmálamenn eru svona hressir og opinskáir á netinu," segir einn á meðan annar segir: „Glórulaust af manni í þinni stöðu og dæmir sig sjálft"

Blogg Össurar má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×