Innlent

Áfram leitað að flugvél í dag ef aðstæður leyfa

TF-SYN er eina loftfarið við leit á þessari stundu.
TF-SYN er eina loftfarið við leit á þessari stundu. MYND/Stöð 2

TF-SYN, Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar, og varðskip frá stofnuninni hafa í morgun leitað flugvélarinnar sem saknað hefur verið fyrir austan land eftir að hún hafnaði í sjónum í gær. Reiknað er með að leit haldi áfram í dag ef aðstæður leyfa.

Að sögn Sigríðar Rögnu Sverrisdóttur, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, hefur varðskipið leitað frá því í gærkvöld en ekkert hefur fundist enn. Bandaríkjamaður var um borð í vélinni, sem er bandarísk, en hann var á leið frá Reykjavík til Wick á Skotlandi.

Að sögn Sigríðar er mjög hvasst á leitarstað og mikil ölduhæð og ekkert útlit fyrir að veður skáni í dag. Hvorki þyrla Landhelgisgæslunnar né Nimrod-vél breska hersins, sem leituðu flugvélarinnar í gær, eru nú á staðnum.

Aðspurð segir Sigríður leitarsvæðið töluvert stórt og það sé reiknað út frá áætluðum lendingarstað vélarinnar og reki á svæðinu með sérstöku leitarforriti. Þá segir Sigríður að neyðarsendir flugvélarinnar hafi aðeins sent ein boð um hádegisbil í gær og erfitt sé að leita út frá einum boðum. Hins vegar hafi leitarvélar farið á þann stað þaðan sem boðin bárust en ekkert fundið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×