Innlent

Vill funda með Eyjamönnum um tillögur þeirra

Sjávarútvegsráðherra segir hugmyndir bæjarstjórnar Vestmannaeyja í sjávarútvegsmálum athyglisverðar en vill ræða við menn þar áður en hann tekur efnislega afstöðu.

Tekjutap sjávarútvegs í Vestmannaeyjum er hátt í fjórir milljarðar króna vegna þessa, sem bætist við þriggja og hálfs milljarðs tekjutap vegna niðurskurðar þorskkvótans á þessu fiskveiðiári.

Í ályktun bæjarstjórnar frá því í gærkvöldi segir að við blasi að sjávarútvegsfyrirtæki verði fyrir slíkum skaða vegna loðnubrestsins, að aðgerða sé þörf til að bæta rekstrarumhverfi þeirra ef ekki á illa að fara. Auk þess að aflétta íþyngjandi álögum á sjávarútveginn vill bæjarstjórn að látið verði af öllum handaflsaðgerðum í sjávarútvegi, fræðasvið sjávarútvegs verði styrkt, hafrannssóknir efldar, að hafnaraðstaða verði byggð upp í Eyjum og að hvalveiðar verði hafnar af fullum þunga.

Pólitíks niðurstaða fyrir fiskveiðiárið liggur fyrir

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hafði ekki náð að rýna í hugmyndir Vestmannaeyinga þegar fréttastofa náði tali af honum eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

Hann sagði þó að hann myndi vonandi eiga samtal við bæjarstjórnina í Vestmannaeyjum fljótlega og fara yfir þessi mál. Margt af þessu væri mjög athyglisvert en efnislega hefði hann ekki haft tök á að kynna sér þetta umfram það sem hann hefði heyrt í fjölmiðlum í morgun.

Aðspurður hvort til greina kæmi að lækka álögur á greinina sagði Einar: „Við tókum um það ákvörðun í vetur að gera það þannig að hin pólitíska niðurstaða fyrir þetta fiskveiðiár liggur fyrir. Þannig að það yrði að takast upp á vettvangi ríkisstjórnarinnar ef menn hygðu á frekari lækkanir í sambandi við veiðigjald."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×