Hjúkrunarfræðingar felldu í dag kjarasamning Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem skrifað var undir þann 10. apríl. Atkvæðagreiðsla vegna samningsins fór fram frá 20. apríl og lauk í hádeginu í dag.
Á kjörskrá voru 2.859, eða þeir hjúkrunarfræðingar sem fengið höfðu laun skv. kjarasamningi félagsins við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs frá 1. apríl 2019 - 31. mars 2020. Alls tóku 2.288 þátt í kosningunum sem svarar til þátttöku upp á áttatíu prósent.
Niðurstaðan var eftirfarandi:
Já sögðu 1.052 eða 45,98%
Nei sögðu 1.213 eða 53,02%
Ég tek ekki afstöðu 23 eða 1,01%
Á heimasíðu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga segir að formanni Samninganefndar ríkisins og Ríkissáttasemjara hafi verið tilkynnt um niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.