Innlent

Hafa þungar áhyggjur af ástandi Norðfjarðarflugvallar

Fjórðungssjúkrahús Austurlands er í Neskaupstað.
Fjórðungssjúkrahús Austurlands er í Neskaupstað. MYND/GVA

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar lýsir þungum áhyggjum af bágbornu ástandi og viðhaldsskorti á Norðfjarðarflugvelli. Í bókun sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar í gær kemur fram að flugvöllurinn gegni lykilhlutverki í þjónustu við Fjórðungssjúkrahús Austurlands og öryggi þeirra sem þangað sækja þjónustu. Þar sé að finna einu fæðingardeildina og skurðstofuna á öllum austurhelmingi Íslands.

„Sjúklingar þurfa að eiga greiða leið á sjúkrahúsið og skjót viðbrögð geta skipt sköpum þegar senda þarf sjúklinga í séraðgerðir á stærri bráðasjúkrahúsunum. Þar geta mínútur skipt máli en það tekur sjúkrabíl um eina klukkustund að aka milli Neskaupstaðar og Egilsstaðaflugvallar við góðar aðstæður. Við erfiðar aðstæður eru vegir um Oddsskarð og Fagradal þekktir farartálmar. Lagfæring flugvallarins og styrking Fjórðungssjúkrahússins mun gagnast öllum íbúum Austurlands og er meðal þeirra mótvægisaðgerða sem mesta þýðingu geta haft í kjölfar mikillar skerðingar aflaheimilda í Fjarðabyggð, segir enn fremur í bókuninni.

Bent er á að að lendingum og farþegum í sjúkraflugi hafi fjölgað um meira en helming milli áranna 2005 og 2007. Á árinu 2005 var 31 farþegi fluttur í 20 lendingum en árið 2007 voru lendingar 42 og farþegar 65. Skorar bæjarstjórnin á samgöngu- og heilbrigðisyfirvöld að sameinast um úrbætur á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×