Erlent

Kostaði hundruð manna lífið

Bjargað úr rústum Fjöldi fólks grófst undir rústum húsa í Yushu-sýslu í Kína.fréttablaðið/AP
Bjargað úr rústum Fjöldi fólks grófst undir rústum húsa í Yushu-sýslu í Kína.fréttablaðið/AP

Að minnsta kosti 400 manns fórust og meira en tíu þúsund meiddust þegar jarðskjálfti varð í fjallahéruðum í vestanverðu Kína, skammt norður af Tíbet.

Fjölmargir grófust undir húsarústum, meðal annars börn í skólum sem hrundu til grunna, og er búist við að tala látinna muni hækka nokkuð.

Jarðskjálftinn mældist 6,9 stig og varð klukkan 7.49 að staðartíma, eða rétt fyrir miðnætti í fyrrakvöld að íslenskum tíma.

„Nærri öll húsin hérna, gerð úr leir og timbri, hrundu,“ sagði Ren Yu, hótelstjóri í Jiegu, helstu borg Yushu-sýslu í sunnanverðu Qinghai-héraði. Þar í sýslunni voru upptök skjálftans, en þar búa um hundrað þúsund manns, flest bændur og hirðingjar.

Þetta svæði er strjálbýlt og afskekkt en sérsveitir lögreglunnar voru fljótt mættar á vettvang og beittu skóflum til að grafa sig niður í rústir húsa í bænum.

Jarðskjálftinn varð vestan til á Longmenshan-sprungunni sem liggur undir samnefndum fjallgarði, er skilur að hálendi Tíbets og sléttuna í Sichuan-héraði.

Fyrir tveimur árum varð skjálfti upp á 7,9 stig austanmegin á sprungunni í Sichuan, og kostuðu þær hamfarir 80 þúsund manns lífið. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×