Viðskipti innlent

Rannsóknarleiðangri á Drekasvæðið lokið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Rannsóknaskipið Harrier Explorer kom við á ytri höfninni í Reykjavík þann 12. júní síðastliðinn áður en það hélt á Drekasvæðið.
Rannsóknaskipið Harrier Explorer kom við á ytri höfninni í Reykjavík þann 12. júní síðastliðinn áður en það hélt á Drekasvæðið. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Olíurannsóknarskipið Harrier Explorer er nú á leið til Stavanger í Noregi eftir tveggja vikna leiðangur á Jan Mayen-hryggnum. Skipið safnaði upplýsingum um jarðlög undir Drekasvæðinu með tvívíðum bergmálsmælingum fyrir kanadíska olíufélagið Ithaca, en það er í forystu fyrir öðru sérleyfinu, sem er í gildi til olíuvinnslu á íslenska landgrunninu.

Þetta var annar rannsóknarleiðangurinn á níu mánuðum sem sérleyfishafar senda á Drekasvæðið. Síðastliðið haust fór rannsóknarskipið Oceanic Challenger þangað á vegum hins sérleyfishópsins, sem kínverska félagið CNOOC fer fyrir. Sá leiðangur stóð í fjórar vikur enda er leitarsvæði þess 2-3 sinnum stærra.

Nú tekur við margra mánaða úrvinnslutími þar sem jarðvísindamenn Ithaca rýna í gögnin í leit að merkjum um kolvetni. Reynist niðurstöðurnar neikvæðar má gera ráð fyrir að leyfi verði skilað inn til íslenskra stjórnvalda. Reynist þær á hinn bóginn jákvæðar tekur við næsta skref olíuleitarinnar, þrívíðar bergmálsmælingar, til að kortleggja líklegar olíulindir með nákvæmari hætti, áður en ákvörðun verður tekin um boranir.

Búist er við að CNOOC-hópurinn taki ákvörðun í haust um framhaldið. Þá munu væntanlega liggja fyrir niðurstöður leiðangursins í fyrrahaust. Fulltrúar þess hóps hafa skýrt frá því að þeir stefni að borun fyrstu holunnar árið 2020, að því gefnu að hljóðbylgjumælingarnar gefi fyrirheit um nægilegar kolvetnisauðlindir sem staðið geti undir vinnslu.


Tengdar fréttir

Hætta olíuleit við Færeyjar

Olíuleit hefur verið hætt við Færeyjar, að minnsta kosti í bili, eftir að síðasta olíufélagið skilaði inn leitarleyfi sínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×