Innlent

Eldur í timburhúsi í miðborginni

Eldur kom upp á matsölustaðnum Kebabhúsinu í Lækjargötu 2 í gærkvöld. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út klukkan hálf níu og var allt tiltækt lið sent á staðinn auk þess sem kallað var á slökkviliðsmenn á aukavakt þar sem um timburhús í hjarta miðborgarinnar var að ræða. Mikinn reyk lagði frá staðnum sem barst bæði um Lækjargötu og Austurstræti. Þremur stórum dælubílum, tveimur ranabílum og nokkrum sjúkrabílum var því stefnt á svæðið. Húsið er samtengt fleiri timburhúsum, meðal annars Hressingarskálanum. Rýma þurfti kaffihús í samliggjandi húsi vegna reyks. Greiðlega gekk að slökkva eldinn. Að slökkvistarfi loknu voru stokkar og klæðning rifin innan úr húsinu til að ganga úr skugga um að glæður leyndust ekki í því. Eldurinn kom upp í steikingarpotti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×