Innlent

Aðeins heimilt stjórnvöldum

Nokkur dæmi eru þess að skjaldarmerkið hafi verið notað í heimildarleysi á veraldarvefnum. Notkunin er aðeins heimil stjórnvöldum.
Nokkur dæmi eru þess að skjaldarmerkið hafi verið notað í heimildarleysi á veraldarvefnum. Notkunin er aðeins heimil stjórnvöldum.

Skjaldarmerki Íslands er notað á pólskri frétta- og spjall-síðu, www.iceland.pl, sem Pólverjar á Íslandi nota töluvert mikið. Skjaldarmerkið hefur einnig verið notað víðar, þar á meðal á vefsíðu starfsmannaleigunnar 2b ehf., en verið fjarlægt þaðan.

Í lögum um þjóðfána og skjaldarmerki Íslendinga kemur fram að skjaldarmerkið er auðkenni stjórnvalda ríkisins og að notkun þess sé aðeins heimil stjórnvöldum. Þórhallur Vilhjálmsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, segir að það sé aldrei veitt undanþága frá því.

Þórhallur segir að óheimil notkun skjaldarmerkisins sé eins og hvert annað lögbrot, sem beri að kæra. Brot varðar sektum. Hann kveðst vita til þess að lögreglan hafi talað við menn vegna ólögmætrar notkunar á skjaldarmerkinu og þá hafi þeir látið af athæfinu.

Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Reykjavík, segir að engar kærur hafi borist og engin mál séu til skoðunar.

Eiður Eiríkur Baldvinsson, forsvarsmaður 2b, segist hafa fjarlægt strax skjaldarmerkið á vefsíðu 2b. Hann hafi einfaldlega ekki gert sér grein fyrir að notkunin væri óheimil. Ekki náðist í forsvarsmenn iceland.pl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×