Innlent

Kona stal jólamat og jólagjöfum

Konan var meðal annars dæmd fyrir að stela vörum úr versluninni Europrís.
Konan var meðal annars dæmd fyrir að stela vörum úr versluninni Europrís.

Hálffimmtug kona var í gær dæmd í níu mánaða óskilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hún hafði gerst sek um þjófnaði á fatnaði, matvælum og jólagjöfum fyrir á þriðja hundrað þúsund króna.

Dómnum þótti sannað að konan hefði reynt að stela vörum í Euro-pris, sem hún var með á leiðinni út í tösku þegar starfsmenn stöðvuðu hana.

Jafnframt að hún hefði farið í heimildarleysi í íbúð við Grettisgötu á Þorláksmessu á síðasta ári og verið búin að setja pels, leðurjakka og annan fatnað í tvo svarta plastpoka. Þá hafi hún verið búin að taka til allan jólamat fjölskyldunnar, bæði hangikjöt og hamborgarhrygg, auk jólagjafa, sem fjögur börn húsráðenda áttu að fá. Konan neitaði sök og kvaðst hafa verið að horfa á jólaskrautið í íbúðinni þegar hún var gómuð.

Konan á að baki langan sakarferil. Hún hefur sex sinnum verið dæmd eða gengist undir sátt vegna þjófnaðarbrota. Fimm sinnum hefur hún verið dæmd til refsingar á skilorði. Í ljósi þess þótti dómnum útilokað að skilorðsbinda refsinguna nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×