Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands segir að rafmagnsleysið sem varð í kjölfar óveðursins í síðustu viku hafi haft víðtæk áhrif á heilbrigðisþjónustuna þar. Engin varaaflsstöð sé til að mynda á Dalvík sem hafi haft víðtæk áhrif á þjónustuna.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands er með starfsstöðvar á átján stöðum á Norðurlandi. Þar á meðal á Dalvík og Sauðárkróki þar sem óveðrið í síðustu viku olli víðtæku rafmagnsleysi. Jón Helgi Björnsson forstjóri stofnunarinnar segir að það hafi haft mikil áhrif.
„Það kom klárlega í ljós til dæmis á Dalvík þar sem ekki er varaafl að þá geta menn lent í vandræðum með að opna tölvur og nýta síma. Almennt má segja að meginvandinn er að það detta niður fjarskiptakerfi og menn treysta á að þau virki. Lærdómurinn af þessu áfalli er að þau eru ekki nógu örugg,“ segir Jón Helgi.
Jón segir að varaafl hafi verið á sjúkrahúsum og legudeildum en hins vegar hafi rafmagnsleysið komið illa niður á heilsugæslustöðvum sem hafa ekki varaafl. Þá eyðilögðust tölvur á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki í rafmagnsleysinu.
„Það voru einhverjar tölvur sem brunnu yfir vegna rafmagnstruflanna. Þá er verið að sinna sjúklingum sem eru kannski mikið veikir heima og það þarf að vera með viðbragð gagnvart þeim. Það er mikilvægt að fara yfir allt ferlið og setja upp skýrari viðbragðsáætlanir, “ segir hann.
Hann segir að Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra verði upplýst um stöðuna.
„Hún verður tvímælalaust látin vita af stöðunni. Þá geta verið eftirköst af svona áfalli, þ.e. þegar fólk er búið að vera lengi rafmagnslaust í vondum veðrum og án símasambands, það getur haft eftirköst,“ segir Jón Helgi.