Innlent

Fá réttindi Hiltonerfingja í vitanum

Ferðafélag Íslands mun sjá um rekstur vitans næstu 10 til 15 árin. Ætlunin er að auka þjónustu á svæðinu, en ferðir um Hornstrandir eru gríðarlega vinsælar hjá félaginu.mynd/páll ásgeir ásgeirsson
Ferðafélag Íslands mun sjá um rekstur vitans næstu 10 til 15 árin. Ætlunin er að auka þjónustu á svæðinu, en ferðir um Hornstrandir eru gríðarlega vinsælar hjá félaginu.mynd/páll ásgeir ásgeirsson
Ferðafélag Íslands (FÍ) tekur yfir rekstur Hornbjargsvita og mun sjá um hann næstu tíu til fimmtán árin. Frá þessu var gengið í gær. Samningurinn er við Siglingastofnun ríkisins, sem er eigandi staðarins.

Ólafur Örn Haraldsson, formaður FÍ, segir rekstur vitans falla mjög vel að starfsemi félagsins. Ferðir um Hornstrandir séu einhverjar þær vinsælustu sem félagið býður upp á. Þá hafi deild félagsins á Ísafirði nýverið verið endurreist og hann vonist eftir góðu samstarfi við hana um reksturinn.

Ævar Sigdórsson yfirgefur nú Hornbjargsvita eftir nokkurra ára dvöl. Hann segir tilfinningarnar blendnar, en flutningur fjölskyldumeðlima af landi brott skýri brotthvarf þeirra. Sumarfrí síðustu ára hafi farið í vitann og það gangi ekki lengur. Fjölskyldan sé þó öll hálfpartinn í sjokki, enda hafi dvölin á Hornbjargi verið gríðarlega mikil reynsla og óvenju lærdómsrík.

„Þetta hefur verið erfitt en mjög gaman og við höfum notið þess að vera þarna. Ég skil þó við þetta í góðum höndum og vonast til að starfsemi Ferðafélagsins verði farsæl á þessum stað."

Ólafur Örn Haraldsson
Ævar segist þó ekki hafa sagt skilið við Hornbjargsvita fyrir fullt og allt. „Við settum í samning að við fjölskyldan ættum innkomu þarna svo lengi sem Ferðafélagið sæi um reksturinn. Við erum eins og Hilton-erfingjarnir, eigum alltaf uppbúna svítu þegar við erum á ferðinni," segir Ævar og hlær.

Ólafur Örn segir Hornbjarg hafa mikil náttúruleg sérkenni og það verði upplifun fyrir ferðamenn að gista þar. Félagið hyggist auka þjónustu á svæðinu. Hann segir staðinn ríkan af sögu og gamalgróið félag eins og FÍ vilji rækta tengslin við söguna.

„Í því skyni má nefna nafna minn Óla komma sem var þar lengi. Ég fann eitt sinn rauða stjörnu úr blikki við vitann, helvíti mikla, líklega voru einir 60 sentímetrar á milli tindanna. Þetta minnti mig á hinar fornu týndu töflur í túni sem fundust aftur og ég endurreisti hið fallna merki og kom því virðulega fyrir. Svona er staðurinn fullur af sögu og skemmtilegheitum," segir Ólafur, en nafni hans kommi hlaut viðurnefni sitt vegna fylgispektar við stefnu Jósefs Stalín.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×