Innlent

Lögfræðingur krúnukúgarans: Það er skítalykt af þessu máli

Breki Logason skrifar
Giovanni di Stefano er ekki sáttur með breska dómskerfið.
Giovanni di Stefano er ekki sáttur með breska dómskerfið.

„Þetta er gjörsamlega út í hött, hann verður sýknaður í þessu máli enda hafa þeir ekkert á hann. Íslenska ríkisstjórnin verður að grípa til aðgerða og vernda sinn borgara, það er brotið á honum," segir Giovanni di Stefano lögmaður Paul Adalsteinssonar eftir niðurstöðu dagsins.

Paul var fyrr í dag birt ákæra vegna meintrar fjárkúgunar á meðlmi konungsfjölskyldunnar. Paul neitaði sakargiftum. Di Stefano er ekki síst vonsvikin yfir því að íslendingurinn hafi ekki verið látinn laus gegn tryggingu. „Fyrr í dag var hryðjuverkamaður sem setið hefur í Guantanmo látinn laus gegn tryggingu en ekki hann. Paul á heimili og er meira að segja með vinnu en samt var honum neitað. Það er skítalykt af þessu og vil ég nota orðið ámælisvert í þessu samhengi," segir di Stefano sem var greinilega mikið niðri fyrir.

Di Stefano talaði við Paul eftir að niðurstaðan lá fyrir og segir hann hafa verið í nokkru uppnámi. „Auðvitað er hann í uppnámi því hann hefur sér ekkert til saka unnið. Aðal vitnið í málinu er ekki einu sinni notað því hann hefur engan trúverðugleika. Hann er á sakaskrá og er lygari. Það er verið að vernda Bresku konungsfjölskylduna og það er rangt."

Lögfræðingurinn skrautlegi sem meðal annars hefur varið Slobodan Milosevic og fleiri segir sönnungargögnin í málinu engin og að Íslenska ríkið verði að skoða málið þar sem klárlega sé verið að brjóta á íslenskum ríkisborgara. Eitthvað hefur þó verið á reiki hvort Paul sé íslenskur ríkisborgari. „Ég er með afrit af vegabréfinu hans, að halda því fram að hann sé ekki íslendingur er lygi."

Di Stefano segir þá félaga ekki hafa gefið upp alla von enda ætli þeir að fara fram á að sú refsing sem Paul hafi nú þegar fengið sé alvarlegri en ákæran gefur til kynna. Þessa athugasemd ætla þeir að setja fram strax eftir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×