Enski boltinn

Pardew þriðja fórnarlamb Benteke-bölvunarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Benteke og fórnarlömbin.
Benteke og fórnarlömbin. vísir/getty
Christian Benteke hefur fyrir löngu sannað sig í ensku úrvalsdeildinni en þessi 26 ára gamli belgíski framherji hefur skorað 59 mörk í 133 úrvalsdeildarleikjum fyrir Crystal Palace, Liverpool og Aston Villa.

Benteke státar einnig af þeirri einstöku tölfræði að allir þrír knattspyrnustjórarnir í ensku úrvalsdeildinni sem hafa keypt hann hafa verið reknir.

Í gær var Alan Pardew, stjóri Palace, látinn taka pokann sinn eftir skelfilegt gengi á þessu ári.

Pardew keypti Benteke í haust og þrátt fyrir að Belginn stóri og stæðilegi hafi skorað átta deildarmörk fyrir Palace dugði það ekki til að bjarga starfi Pardews.

Benteke kom til Palace frá Liverpool þar sem hann lék aðeins í eitt tímabil. Brendan Rodgers keypti Benteke fyrir 32,5 milljónir punda sumarið 2015 en samvinna þeirra var skammvinn því Rodgers var rekinn skömmu síðar.

Paul Lambert var fyrstur til að kaupa Benteke en Aston Villa borgaði sjö milljónir punda fyrir hann 2012. Benteke og Lambert störfuðu saman í þrjú ár áður en sá síðarnefndi fékk sparkið í febrúar í fyrra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×