Enski boltinn

Guardiola hefur aldrei upplifað þessa tíma áður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur náð frábærum árangri sem þjálfari Barcelona og Bayern München.

Hann hefur mikla reynslu eftir sjö tímabil í tveimur af sterkustu deildum Evrópu en þrátt fyrir það hefur aldrei upplifað þá tíma sem eru nú framundan hjá Manchester City.

Guardiola hefur nefnilega aldrei stýrt liði eftir 22. desember áður. Nú þarf hann að stýra liði sínu bæði á öðrum degi jóla, á Gamlársdag og svo einn leik tilviðbótar 2. janúar.

Þetta eru þrír leikir á sjö dögum, dögum sem Pep Guardiola hefur hingað til getað notið jólanna í rólegheitunum með fjölskyldu sinni.

Bæði spænska og þýska deildin eru með vetrarfrí í sínum deildum þótt fríið sé nú talsvert lengra í Þýskalandi.

Leikirnir sem eru framundan hjá Pep Guardiola og hans mönnum í Manchester City eru útileikur á móti Hull 26. desember, útileikur á móti Liverpool 31. desember og loks heimaleikur á móti Burnley 2. janúar.

Manchester City er þegar sjö stigum á eftir toppliði Chelsea og má því alls ekki við því að misstíga sig í þessum þremur leikjum. Leikurinn á Gamlársdag er síðan uppgjör við Liverpool á Anfield en þessi lið eru eins og er að berjast um annað sæti deildarinnar.  

Liverpool hefur eins stigs forskot í dag en bæði lið eiga eftir að spila einn leik áður en þau mætast, Liverpool á móti Sunderland  en Manchester City á móti Hull.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×