Erlent

Hugðust gera hryðjuverkaárás í Melbourne á jóladag

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla í Ástralíu segir að tekist hafi að koma í veg fyrir hryðjuverkaárás sem til stóð að gera í Melbourne á jóladag.

Fimm manns voru handteknir í aðgerðum lögreglu í morgun.

Graham Ashton, lögreglustjóri í Victoria-ríki, segir að mennirnir hafi ætlað sér að notast við sprengiefni og önnur vopn, þar á meðal hnífa eða skotvopn.

Ashton segir að mennirnir hafi ætlað sér að ráðast á fjölmenna staði í borginni, þar á meðal Flinders Street lestarstöðina, Federation torgið og dómkirkjuna St Paul’s.

BBC greinir frá því að fjórir hinna handteknu hafi verið Ástralir af líbönskum uppruna á þrítugsaldri, en sá fimmti Ástrali af egypskum uppruna.

Ashton segir að mennirnir virðast hafa verið undir áhrifum hryðjuverkasamtakanna ISIS en að ekkert bendi til að þeir hafi verið í sérstökum samskiptum við liðsmenn samtakanna.

Tveir til viðbótar, karl og kona, voru einnig handtekin vegna málsins en síðar sleppt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×