Lítill kópur sem fannst illa haldinn á Suðurnesjum í morgun hefst nú við í Húsdýragarðinum. Markmiðið er að koma honum sem fyrst aftur heim í sjóinn.
Lögreglan á Suðurnesjum greindi frá því á Facebook síðu sinni í dag að hún hafi í morgun fundið kóp í umdæminu. Móðirin hafi hvergi verið sjáanleg og því hafi samband verið haft við Húsdýragarðinn. Kópurinn var fluttur í garðinn og kom þangað síðdegis í dag.
„Þessi kópur var nú bara að koma í hús og virtist nú vera aðframkominn, líklegast er þetta hringanóri, “ segir Þorkell Heiðarsson, deildarstjóri í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Kópurinn er tæp átta kíló og um 60 sentímetrar.
„Hann var aumur þegar hann kom, blautur og kaldur,“ segir Þorkell.
Viðbrögð við færslu lögreglunnar voru misjöfn. Margir sögðu að ekki hafi verið rétt hjá lögreglunni að taka kópinn í burtu, móðir hans gæti hafa verið í grenndinni. Þessar raddir virðast þó hafa talið að um væri að ræða útsel en algengt er að mæður af þeirri tegund skilji þá eftir um stund á meðan þær fara að veiða.
Þorkell segist vera nokkuð viss um að um ræði hringanóra en hringanóri er algengur flækingur við Íslands, sérlega á Norðurlandi.
„Landselir sem er algengasti selurinn hérna þeir kæpa á vorin og sumrin og útselurinn á haustin,“ segir Þorkell.
Hlúð verði að kópnum í dýragarðinum og svo metið hvert framhaldið verður. „Svo er náttúrulega markmiðið að koma honum sem fyrst aftur út í sjó,“ segir Þorkell.