Norðmenn rúlluðu yfir Ungverja, 36-29, þegar liðin mættust í milliriðli II á EM í handbolta í dag.
Watch the Game Highlights from Norway vs. Hungary, 01/17/2020 pic.twitter.com/Wu72eIGjpI
— EHF EURO (@EHFEURO) January 17, 2020
Noregur hefur unnið alla leiki sína á EM og eru með fjögur stig í milliriðlinum. Ungverjaland er með tvö stig.
Norðmenn byrjuðu leikinn miklu betur, skoruðu fyrstu fjögur mörkin og eftir tíu mínútur var staðan 9-2, Noregi í vil.
Eftir rúmar 17 mínútur var munurinn orðinn tíu mörk, 15-5. Norðmenn leiddu svo í hálfleik, 20-12. Noregur skoraði því fleiri mörk í fyrri hálfleik en Ísland gerði í öllum leiknum gegn Ungverjalandi á miðvikudaginn.
Seinni hálfleikurinn var óspennandi enda úrslitin svo gott sem ráðin.
Ungverjar minnkuðu muninn í fjögur mörk, 23-19, en Norðmenn svöruðu með 5-1 kafla og náðu heljartaki á leiknum. Á endanum munaði svo sjö mörkum á liðunum, 36-29.
Sander Sagosen skoraði sjö mörk fyrir Noreg og Göran Johannessen sex.
Bence Nagý og Patrik Ligetvari skoruðu fimm mörk hvor fyrir Ungverjaland.