Erlent

Líbískri flugvél rænt og lent á Möltu

Atli Ísleifsson skrifar
Flugvél Afriqyah Airways með 118 manns um borð á að hafa verið rænt og lent á Möltu.

Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, greindi frá þessu á Twitter í morgun.

Vélin er af gerðinni Airbus A320 og var í innanlandsflugi í Líbíu þegar henni var rænt.

Times of Malta greinir frá því að vélinn hafi verið á leið frá Sebha til Trípolí. 111 farþegar eiga að vera um borð í vélinni og sjö áhafnarmeðlimir.

Óljóst er hvort að gíslatökumennirnir eru einn eða tveir, en Times of Malta greinir frá því að maður segist vera með handsprengju um borð. Kveðst hann reiðubúinn að sleppa farþegunum frá borði, verði gengið að kröfum hans. Ekki liggur fyrir hverjar þær eru.

Flugfélagið Afriqiyah Airways var stofnað í apríl 2011 og gerir út frá Trípolí. Félagið býður upp á ferðir milli Trípolí og Benghazi auk 25 alþjóðlegra flugleiða í Evrópu, Afríku og Asíu.

Uppfært 11:30:

Hreyflar vélarinnar voru enn í gangi á flugbrautinni á Möltu um klukkan 11:15 og eru hermenn í viðbragðsstöðu nokkuð frá. Svo virðist sem að enginn hafi enn sem komið er nálgast vélina. Times of Malta greinir frá þessu.

Uppfært 13:47:

Forsætisráðherra Möltu segir á Twitter síðu sinni að 109 gíslum hafi nú verið sleppt.

Uppfært 13:57:

Búið er að sleppa öllum farþegum úr vélinni. Eftir í vélinni eru tveir gíslatökumenn og mögulega einhverjir úr áhöfn.

Uppfært 11:48:

Búið er að sleppa öllum gíslunum og hafa gíslatökumennirnir verið handteknir.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×