Innlent

„Forsætisráðherra sagði ekki satt og rétt frá“

Hafsteinn Hauksson skrifar
Ríkisendurskoðun telur að svör forsætisráðherra hafi gefið ófullnægjandi mynd af kostnaði ráðuneyta við aðkeypta ráðgjöf frá starfsmönnum Háskólans. Þingmaður sem óskaði eftir upplýsingunum segir alvarlegt að forsætisráðherra segi ekki satt frá.

Ríkisendurskoðun vann skýrslu um kostnað ráðuneyta við aðkeypta þjónustu þáverandi starfsmanna félagsvísindasviðs Háskóla Íslands á árunum 2007 til 2010. Það var forsætisnefnd alþingis sem óskaði eftir skýrslunni að beiðni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, en hann taldi að svar forsætisráðherra við fyrirspurn hans um sama efni hefði verið rangt. Í skýrslu ríkisendurskoðunar kemur fram að upphafleg svör forsætisráðuneytisins hafi verið ófullnægjandi.

Guðlaugur Þór fagnar skýrslunni og segir hana sýna fram á mikilvægi þess að þingið hafi eftirlit með framkvæmdavaldinu. Hann kallar skýrsluna þó áfellisdóm yfir forsætisráðherra.

„Það þurfti Ríkisendurskoðun til að fá réttar upplýsingar," segir Guðlaugur. „Það er auðvitað mjög alvarlegt að þegar þingmenn spyrja framkvæmdavaldið um einstaka hluti, þá fái þeir ekki réttar upplýsingar. Það er það sem gerist í þessu tilfelli. Það er ekki fyrr en ríkisendurskoðun gerir sína skýrslu að við fáum að vita hvað er rétt í málinu."

Í skýrslunni kemur fram að í svari forsætisráðuneytisins hafi ekki verið gerð grein fyrir greiðslum sem runnu til félaga í eigu starfsmanna félagsvísindasviðs, en það hafi verið stærstu mistök ráðuneytisins. Þar hafi komið í ljós umtalsverðar greiðslur sem ekki var getið í svari forsætisráðherra. Þá hafi svarið ekki tekið til stundakennara, eða þeirra starfsmanna sem höfðu verið í ráðningarsambandi við ráðuneytin, heldur eingöngu fastráðinna starfsmanna félagsvísindasviðs sem þáðu verktakagreiðslur hjá ráðuneytunum.

„Forsætisráðherra sagði ekki satt og rétt frá. Það hlýtur að vera afskaplega alvarlegt," segir Guðlaugur.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur raunar fram að stofnunin hafi ekki ástæðu til að ætla að upplýsingum hafi vísvitandi verið leynt, en forsætisráðuneytið fagnar því að það komi fram með skýrum hætti.

Ríkisendurskoðun segir að bæta þurfi yfirsýn yfir aðkeypta þjónustu ráðuneyta, og telur jafnframt að notkun á launakerfi ríkisins til greiðslu fyrir sérfræðiþjónustu orka tvímælis. Forsætisráðuneytið hafnar því að yfirsýn skorti, en fellst á að fjármálaráðuneytið þurfi að setja samræmdar reglur um notkun launakerfisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×