Lífið

Óli Palli með fjölskyldunni á Hróarskeldu

Ólafur Páll Gunnarsson útvarpsmaður í rigningunni á Hróarskeldu árið 2007.
Ólafur Páll Gunnarsson útvarpsmaður í rigningunni á Hróarskeldu árið 2007.
„Við erum mjög spennt. Þetta er alltaf jafn skemmtilegt,“ segir Ólafur Páll Gunnarsson, útvarpsmaður og Hróarskelduaðdáandi með meiru.

Ólafur Páll, eða Óli Palli eins og hann er oftar kallaður, tekur konu sína og dóttur með sér á Hróarskeldu í ár, en hátíðin hefst að fullu í dag. „Konan hefur komið nokkrum sinnum með mér og stelpan kom fyrst með árið 2007,“ segir Óli Palli, sem sjálfur hefur verið fastagestur á Hróarskeldu frá árinu 1996.

Hátíðin í ár hefur hlotið gagnrýni fyrir að vera ekki með nógu margar þekktar hljómsveitir, en þekktustu böndin í ár eru Arctic Monkeys, Kings of Leon og Iron Maiden.

„Dagskráin hefur oft verið litskrúðugri og flottari, en þetta er allt í góðu. Maður verður oftast ánægðastur með það sem maður hálfpartinn sá óvart og hafði ekki ætlað sér að sjá,“ segir Óli Palli, en bætir við að það hefði ekki verið verra að sjá listamenn á borð við Nick Cave, Neil Young og Bob Dylan eða hljómsveitina U2. „Ég held að ég sé spenntastur fyrir Iron Maiden, þó svo að ég hafi séð þá þrisvar eða fjórum sinnum áður,“ segir Óli Palli.

Hann segir fjölskylduna ekki ætla að tjalda í ár. „Við höfum stundum verið í tjaldi en við erum með íbúð inni í Hróarskeldu núna, hún er í göngufæri við hátíðarsvæðið. Það er algjör lúxus,“ segir Óli Palli, sem flaug til Danmerkur í gær.- ka






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.