Innlent

Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurð

Barnaverndaryfirvöld í Vestmannaeyjum sóttu fast að maðurinn yrði hnepptur í varðhald þegar málið kom upp.
Barnaverndaryfirvöld í Vestmannaeyjum sóttu fast að maðurinn yrði hnepptur í varðhald þegar málið kom upp. Mynd/GVA
Hæstiréttur staðfesti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Suðurlands yfir meintum barnaníðingi í Vestmannaeyjum sem er sakaður um að hafa misnotað átta ára gamla stjúpdóttur sína. Hann skal sitja í varðhaldi til 22. júlí næstkomandi. Maðurinn er grunaður um að hafa misnotað þrjár stúlkur.

Eins og komið hefur fram gekk maðurinn laus í eitt ár eftir að lögreglu var ljóst að um alvarlegt kynferðisbrotamál var að ræða. Gæsluvarðhalds var fyrst krafist á laugardaginn en lögregla hafði undir höndum mikið magn myndefnis sem sýndi manninn misnota stúlkuna. Misnotkunin er talin hafa staðið yfir svo mánuðum skipti.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, hefur verið gagnrýndur hart fyrir að hafa ekki farið fram á gæsluvarðhald um leið og málið kom upp. Settur saksóknari í málinu, Hulda Elsa Björgvinsdóttir, er á meðal gagnrýnenda. Ólafur hefur varið ákvörðun sína og fagnaði í gær úrskurði Hæstaréttar. Ólafur Helgi hefur ekki íhugað afsögn vegna málsins.

Á heimili mannsins fundust myndir sem sýna hann misnota stjúpdóttur sína. Einnig fannst ógrynni myndefnis sem sýnir börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Maðurinn á yfir höfði sér allt 16 ára fangelsi. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×