Lífið

Býflugur á Sigló suða um svalir

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Arnar Ómarsson ákvað að smíða svalir fyrir býflugurnar.
Arnar Ómarsson ákvað að smíða svalir fyrir býflugurnar. Mynd/Daníel Starrason
„Við vorum nokkrir vinir að virða þetta fyrir okkur og þá kom upp þessi hugmynd um að smíða svalir fyrir þær,“ segir hinn 28 ára gamli listamaður, Arnar Ómarsson, sem hefur búið vel um býflugnabú á Siglufirði.

Hann kom auga á býflugnabú sem staðsett var inni í steypuvegg í Alþýðuhúsinu á Siglufirði og ákvað að smíða svalir fyrir framan opið til að gleðja flugurnar flottu. „Ég veit ekki hversu stórt bú þetta er en það eru allavega einhverjar býflugur búnar að koma sér fyrir inni í steypuveggnum,“ segir Arnar.

Hann hefur þó smíðað tvennar svalir fyrir flugurnar. „Fyrri svalirnar urðu fljótt úreltar þannig að ég bjó til nýjar og hafði þær töluvert flottari,“ útskýrir Arnar. Á nýju svölunum er að finna afþreyingu fyrir bústnar býflugurnar eins og sólstól og skilti en á skiltinu eru skilaboð frá Arnari. „Það stendur á skiltinu tilkynning um eftirlit og kveðja frá mér.“ 

Ætlarðu að bæta við öðru sniðugu á svalirnar? „Það gæti verið að maður bæti einhverju við og jafnvel stækki svalirnar. Maður þarf bara að komast að því hvað býflugum finnst skemmtilegt að gera,“ segir Arnar og skellihlær.

Hann er ekki hræddur við býflugur. „Eru þær ekki meinlausar?“

Arnar er frá Akureyri en er staddur á Siglufirði við vinnu og nýtur þess að dást að flugunum í sínum frítíma. „Þetta er bara skemmtilegt og gaman að breyta aðeins til.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×